Innlent

Persónuvernd skoðar skilmála Kaupþings

Persónuvernd skoðar nýlegar breytingar á kortaskilmálum Kaupþings sem gera bankanum kleift að safna saman persónuupplýingum um viðskiptavini sína og selja þær áfram til annarra fyrirtækja. Mögulegt er að skilmálarnir feli í sér nauðungarsamninga.

Rúmlega fjörtíu þúsund viðskiptavinir Kaupþings fengu í síðasta mánuði sendan heim til sín bækling þar sem kynntir eru nýir kortaskilmálar bankans. Í bæklingnum er þó ekki sérstaklega tekið fram hverju er verið að breyta heldur er hinn nýi samningur einfaldlega birtur í heild sinni.

Breytingarnar taka gildi næsta mánudag og ná til allra greiðslukorta bankans en markmiðið er að samræma alla núgildandi kortaskilmála.

Meðal helstu breytinga má nefna að Kaupþing fær leyfi til að vinna persónuupplýsingar sem verða til við notkun kortsins en slík ákvæði eru nú í gildi fyrir hin svokölluðu e-kort. Upplýsingarnar ætlar bankinn að nota til að finna neyslumynstur fólks sem notað verður til að skipuleggja gerð tilboða en tilboðunum verður komið til korthafa meðal annars í formi SMS-skilaboða. Bankinn áskilur sér einnig rétt til að koma þessum upplýsingum til samstarfsaðila eftir að þær hafa verið gerðar ópersónugreinanlegar.

Viðskiptavinur telst samþykkja hina nýju skilmála með því nota kortið eftir að breytingarnar taka gildi. Vilji hann það hins vegar ekki þarf hann að láta loka kortinu.

Stöð tvö fjallaði um málið í síðustu viku en síðan þá hafa fjölmargir sett sig í samband við Persónuvernd samkvæmt upplýsingum þaðan. Þá hafa stofnuninni borist tvær skriflegar kvartanir þar sem óskað er eftir úrskurði í málinu.

Meðal þess sem kvartað er undan er að skilmálarnir séu ekki í samræmi við lög um persónuupplýsingar. Þá vilja sumir meina að um nauðungarsamning sé að ræða þar sem fólk eigi í raun engra kosta völ.

Persónuvernd skoðar nú málið en ekki er útilokað að Kaupþing þurfi að fresta gildistöku skilmálanna á meðan málið er til umfjöllunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×