Innlent

Vill kanna til hlítar rafræn ökklabönd

MYND/GVA

Dómsmálaráðherra telur að hægt sé að hafa betra eftirlit með kynferðisafbrotamönnum á reynslulausn með rafrænum ökklaböndum. Þetta kemur fram í svari hans við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Siv spurði ráðherra hvort hann teldi koma til greina að nota ökklabönd til að tryggja betur farbann grunaðra sakamanna. Ráðherra telur að kanna eigi til hlítar hvernig best yrði staðið að því að nýta rafræn eftirlitskerfi til að framfylgja farbanni eða fullnustu refsinga. Bendir hann á að rafræn ökklabönd hafa verið í notkun í Bandaríkjunum, Bretlandi og Svíþjóð með góðum árangri.

Þau megi nýta við afplánun vægari refsinga, t.d. vararefsingar fésekta, og með þeim yrði einnig unnt að hafa betra eftirlit með kynferðisafbrotamönnum sem fá reynslulausn. Í svarinu kemur einnig fram að með rafrænum eftirlitsbúnaði megi skilgreina heita reiti sem sakamaður megi ekki fara til eins flugvelli og hafnir. Nálgist sakamaður heita reitinn sendi tækið frá sér viðvörunarmerki til yfirvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×