Innlent

Utanríkisráðherra kynnir sér SOS-barnaþorp í Botswana

MYND/SOS-barnaþorpin

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, sem stödd er í Botswana, heimsótti í gær SOS-barnaþorp skammt frá höfuðborg landsins, Gaborone. Með henni í för var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, sendiherra Íslands í Suður-Afríku.

Eftir því sem fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins hafði starfsfólk þorpsins undirbúið heimsóknina vel ásamt börnunum og fengu Ingibjörg og Sigríður góða innsýn í starf SOS-barnaþorpanna.

Fengu þær meðal annars að heyra um nærri sjötíu alnæmissmituðu börn sem búa í barnaþorpunum í Botswana og fá viðeigandi meðferð í boði SOS og yfirvalda í landinu. Þá fengu gestirnir að heyra um verkefni sem miðar að því að bjarga 1100 börnum úr barnaþrælkun.

Að kynningu lokinni dönsuðu börnin fyrir gestina og Ingibjörg Sólrún sagði börnunum frá Íslandi en fjarlægðin, veðurfarið og heitir hverir vöktu mikinn áhuga. Ingibjörg og Sigríður heimsóttu síðan heimili barnanna og skoðuðu aðstöðuna.

94 íslenskir styrktarforeldrar eru með börn í Botswana og 20 Íslendingar eru barnaþorpsvinir og styrkja þannig starf barnaþorpanna í Botswana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×