Viðskipti innlent

Geir vill að bankarnir hægi á vexti sínum

Geir Haarde
Geir Haarde

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir í viðtali við Financial Times að hann telji að íslensku bankarnir þurfi að hægja á vexti sínum til þess að auka tiltrú alþjóðafjárfesta á íslenska hagkerfinu. Í grein Financial Times er greint frá því að tiltrú á íslensku bönkunum hafi minnkað að undanförnu vegna of mikils skuldatryggingaálags.

„Bankarnir hafa verið í mikilli útrás að undanförnu og ef til vill er kominn tími til að þeir endurskoði þá stefnu sína," er haft eftir Geir á vefútgáfu Financial Times.

Þá segir blaðið frá því að Moody´s hafi lækkað lánshæfismat Kaupþings, Landsbankans og Glitnis í síðustu viku. Einnig er sagt frá því að bankarnir hafi verið að endurskoða rekstur sinn að undanförnu og meðal annars hafi Kaupþing hætt við kaupin á hollenska bankanum NIBC.

Í greininni kemur jafnframt fram að skuldatryggingaálag íslensku bankanna hafi hækkað gríðarlega á undanförnum mánuðum og haft er eftir Geir að hann telji þessa hækkun hafa orðið án nokkurrar réttlætingar.

„Ef þú hefur áhyggjur af því að fá ekki endurgreitt, sem er það sem traust snýst um, þá ættirðu ekki að hafa áhyggjur af íslensku bönkunum, hvað þá íslenska ríkinu," er haft eftir Geir.

Þá segist Geir ætla að fara í sérstakt átak í þessum mánuði til þess að auka traust alþjóðafjárfesta á íslensku efnahagslífi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×