Innlent

Vilja heræfingar í umhverfismat

Steinunn Þóra Árnadóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpanna.
Steinunn Þóra Árnadóttir er fyrsti flutningsmaður frumvarpanna. MYND/Heiða

Sjö þingmenn Vinstri - grænna hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að heræfingar á íslenskri grundu og í íslenskri lögsögu verði háðar umhverfismati. Bent er á í greinargerð með frumvarpinu að heræfingar hafi verið algengar hér á undanförnum árum og það sé staðreynd að starfsemi af hernaðarlegum toga, þar með taldar heræfingar, geti haft í för með sér mikil og neikvæð umhverfisáhrif.

„Hernaðarstarfsemi er oftar en ekki afar mengandi, má í því samhengi benda á mengunarsvæði á og við gömlu herstöðina á Miðnesheiði og gömul skotæfingasvæði bandaríska hersins á Reykjanesskaga," segir enn fremur í greinargerðinni.

Auk olíu- og þungmálmamengunar geti heræfingar haft í för með sér umtalsvert ónæði og truflun og dæmi séu um að lágflugsæfingar herþotna hafi raskað ró fólks og komið styggð að dýrum. Einnig hafi aðilar í ferðaþjónustu gagnrýnt harðlega lágflugsæfingar sem skapað hafa stórhættu í hestaferðum með ferðamenn.

Stríðsleikir fullorðins fólks

Með því að fella heræfingar undir lög um mat á umhverfisáhrifum sé tryggt að hagsmunaaðilar á borð við sveitarfélög, landeigendur, ferðaþjónustufyrirtæki og útivistarfólk geti komið að athugasemdum varðandi framkvæmd og staðarval heræfinga og vonandi minnkað líkurnar á skaða vegna þeirra.

 

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nýjum staflið verði bætt í 12. lið 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum. Færa má rök fyrir því að heræfingar ættu allt eins heima í 11. lið, þar sem m.a. er fjallað um prófunaraðstöðu fyrir vélar og hreyfla og geymslu brotajárns. Niðurstaða flutningsmanna er þó sú að 12. liðurinn, Ferðalög og tómstundir, sé betur lýsandi fyrir stríðsleiki fullorðins fólks," segir að endingu í greinargerð með frumvarpinu.

Þá hafa þingmennirnir einnig lagt fram frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum þess efnis að notkun lands til heræfinga utan varnar- og öryggissvæða verði háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar að fenginni umsögn viðkomandi svæðisskipulagsnefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×