Viðskipti innlent

Nauðsynlegt að bæta Lárusi skaða af flutningi milli starfa

Nauðsynlegt var að bæta Lárusi Welding, forstjóra Glitnis, þann fjárhagslega skaða sem hann hefði ella orðið fyrir við að færa sig til bankans frá Landsbankanum í London. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórn Glitnis vegna spurninga Vilhjálms Bjarnasonar, hluthafa í bankanum og framkvæmastjóra Samtaka fjárfesta.

Starfslokasamningur Bjarna Ármannssonar og ráðningarsamningur Lárusar Welding hafa verið gagnrýndir og hefur komið fram að Lárus fékk 300 milljónir króna fyrir að taka að sér forstjórastöðuna í stað Bjarna.

Í tilkynningu frá Glitni vegna málsins segir að þegar Bjarni Ármannsson lét af störfum hafi verið ljóst að vandasamt yrði að fylla skarð hans. Lárus Welding hafi orðið fyrir valinu en hann starfaði þá sem framkvæmdastjóri Landsbankans í London. „Lárus hafði á þeim tíma áunnið sér ákveðin starfskjör og réttindi sem hann lét af hendi þegar hann skipti um starfsvettvang. Við ráðningu hans var nauðsynlegt að bæta honum þann fjárhagslega skaða sem hann ella hefði orðið fyrir við starfsskiptin," segir í yfirlýsingunni. Þar er einnig lýst yfir ánægju með störf Lárusar fyrir Glitni.

Þá segir stjórn Glitnis um starfslokasamning Bjarna Ármannssonar, fyrrverandi forstjóra, að henni hafi verið veitt heimild á aðalfundi í fyrra að kaupa eigin hluti upp að 10 prósenta mörkum sem heimil séu samkvæmt hlutafélagalögum. Kaupverð hluta skyldi í slíkum tilvikum vera lægst 10 prósentum lægra og hæst 10 prósentum hærra en skráð kaup- eða sölugengi í Kauphöll Íslands á hverjum tíma. Þessi heimild sé í fullu samræmi við ákvæði 55. greinar hlutafélagalaga um þetta efni. Samningurinn við Bjarna hafi verið innan þessara vikmarka og þar með innan umboðs stjórnar Glitnis.

Um kaupréttarsamninga við aðra starfsmenn Glitnis segir stjórnin að í samræmi við starfskjarastefnu Glitnis hafi stjórnin samþykkt þann 30. maí kaupréttarstefnu vegna þess sem eftir lifði ársins 2007 og ársins 2008. „Samkvæmt henni er heimilt að gera kaupréttarsamninga fyrir allt að 550 milljón hlutum við lykilstarfsmenn í bankanum. Kaupréttarverðið við gerð kaupréttarsamninga á þeim tíma var kr. 27,5 sem var verð hluta í Glitni banka hf. á þeim degi. Gerð kaupréttarsamninga við starfsmenn er í samræmi við það sem þekkist hjá öðrum fjármálafyrirtækjum hérlendis og erlendis.

Ljóst er að ávinningur kaupréttarhafa er háður því að gengi bankans hækki og verðmunur myndist á markaðsgengi hlutabréfa í bankanum og gengi kaupréttar. Þannig hefur starfsfólk með kauprétti hvata að því að vinna að því að auka hagnað félagsins og hámarka hag hluthafa.

Hafa ber í huga að raunkostnaður fellur ekki til vegna slíkra samninga nema hlutabréf hafi hækkað umfram viðmiðunargengi og hluthafar þar af leiðandi notið verðhækkunar á bréfum sínum. Ljóst er að til þess að bankinn verði fyrir raunkostnaði vegna samninga sem gefnir voru út árið 2007, í samræmi við kaupréttarstefnu, þarf gengi félagsins að hækka um 40-50% frá núverandi markaðsgengi," segir í tilkynningu stjórnar Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×