Innlent

SGS kallar eftir skilvirkari mótvægisaðgerðum vegna kvótaskerðingar

Kristján Gunnarsson er formaður Starfsgreinasambandsins.
Kristján Gunnarsson er formaður Starfsgreinasambandsins.

Forysta Starfsgreinasambands Íslands kallaði eftir skilvirkari mótvægisaðgerðum vegna kvótaniðurskurðar á fundi sínum með forsætisráðherra, utanríkisráðherra og sjávarútvegsráðherra í dag um málefni fiskvinnslufólks.

Fram kemur á vef Starfsgreinasambandsins að forsvarsmenn þess hefðu áður lýst verulegum áhyggjum af þeirri þróun sem er að verða í íslenskum sjávarútvegi. Á fundi með ráðamönnum voru ræddar fjöldauppsagnir í sjávarútvegi og það sem Starfsgreinasambandið kallar getuleysi kvótakerfisins til að tryggja öflugt atvinnulíf í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Benti Starfsgreinasambandið á að frá því að þorskkvóti hefði verið skorinn niður um þriðjung á síðasta ári hefðu 456 einstaklingar fengið uppsagnarbréf í fiskvinnslu og 102 stæðu frammi fyrir tímabundnum lokunum í allt að 5 mánuði.

„Niðurskurður á þorskkvóta virðist einnig notaður til ótímabærra uppsagna og án mótvægisaðgerða. Ferskasta dæmið er HB Grandi á Akranesi, sem hvorki virðir lög um hópuppsagnir né sjónarmið um samfélagslega ábyrgð í athöfnum sínum," segir á vef Starfsgreinasambandsins. Þar er einnig bent á að starfsfólki í fiskvinnslu hafi fækkað um þriðjung á árabilinu 1997-2006 og gera megi ráð fyrir að um þúsund störf glatist í fiskvinnslu á þessu ári ef fram heldur sem horfir.

Reglur um samfélagslega ábyrgð

Starfsgreinasambandið setti fram ýmsar væntingar á fundinum með stjórnvöldum, meðal annars að setja þyrfti reglur um samfélagsleg skilyrði og ábyrgð kvótahafa meðan kerfið er ekki aflagt til að koma í veg fyrir fyrirvaralausar hópuppsagnir án mótvægisaðgerða og án samráðs við viðkomandi sveitafélög, Vinnumálastofnun og stéttarfélög starfsfólks.

Þá þyrftu mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar að taka mið af þörfum fiskvinnslufólks en ekki aðeins þeirra byggðarlaga þar sem kvótinn er skráður þá og þá stundina óháð vinnslunni. Efla þyrfti starfsfærni fiskvinnslufólks til annarra starfa með endurmenntun og fullorðinsfræðslu og þá þyrfti að gera það fýsilegra eða gera það að kvöð að vinna sem mestan afla innanlands. Þá þyrfti að styrkja nýsköpun í sjávarútvegi og vinnslu sjávarafurða til að auka verðmæti þess afla sem enn er veiddur hér við land.

„Skilvirkar mótvægisaðgerðir, þar sem tillit er tekið til ofangreindra atriða gætu skilað betri sjávarútvegs- og vinnslufyrirtækjum en við búum við í dag, þar sem samfélagsleg ábyrgð og samfélagslegir hagsmunir eru í fyrirrúmi öflugs atvinnulífis í fiskveiðum og fiskvinnslu, þar sem framleiðsla verðmætrar gæðavöru tryggir arðbær, örugg og vel launuð störf til langs tíma," segir á vef Starfsgreinasambandsins.

Starfsgreinasambandið segir ríkisstjórnina hafa tekið hugmyndirnar til skoðunar og þakkað umræðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×