Innlent

Fimmtán rafvirkjar á Landspítalanum ganga að óbreyttu út 1. mars

MYND/GVA

Fimmtán rafvirkjar hjá Landspítalanum sem sögðu upp störfum fyrir áramót vegna óánægju með launakjör hafa ekki dregið uppsagnirnar til baka og ganga að óbreyttu út 1. mars. Deildarstjóri lýsir yfir áhyggjum af málinu og vonast til að sjúkrahúsið komi til móst við mennina.

Greint var því fréttum fyrir áramót að rafvirkjarnir hefðu sagt upp störfum og að það stefndi í óefni á Landspítalanum af þeim sökum. Sögðu þeir upp eftir að í ljós kom að laun rafvirkja við Landspítalannn hefðu ekki fylgt launaþróun og var því farið fram á leiðréttingu. Þegar ekki var orðið við því ákváðu rafvirkjarnir að segja upp.

Athygli vakti að Landspítalinn auglýsti um síðustu helgi eftir rafvirkjum og er umsóknarfrestur vegna starfanna til 18. febrúar. Kristján Theódórsson, deildarstjóri á rafmagnsverkstæði Landspítalans, segir í samtali við Vísi að margir hafi þegar haft samband vegna auglýsingarinnar. Aðspurður segir hann rafvirkjana sem sögðu upp ekki hafa dregið uppsagnir sínar til baka. Ef þeir hætti allir verði á bilinu fimm til tíu rafvirkjar eftir, þar á meðal verktakar hjá spítalanum.

Spurður segist Kristján vissulega hafa áhyggjur af málinu. „Það er alltaf slæmt að missa menn, ekki síst menn með 15 ára reynslu og þaðan af meira. Þeir hafa gríðarlega þekkingu á kerfum spítalans og ég vona að spíltainn sjái að sér og komi til móts við þá," segir Kristján.

Aðspurður hvort ekki muni skapast alvarleg staða við brotthvarf mannanna segir Kristján að skoða verði hlutina í samhengi. Helmingur rafvirkja hafi verið í framkvæmdum á spítalanum og um helmingur í þjónustu og það sé síðarnefndi hópurinn sem horft sé til að sinni. Hann segist jafnframt vonast til að málin leysist fyrir þarnæstu mánaðamót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×