Viðskipti innlent

Stærstu fyrirtækjakaup Íslandssögunnar blásin af

Kaup Kaupþings banka á hollenska bankanum NIBC voru tilkynnt þann 15. ágúst á síðasta ári. Jafnframt fylgdi sögunni að um stærstu einstöku kaup íslensks félags í sögunni væri að ræða. Kaupverðið var tæpir 3 milljarðar evra eða í kringum 300 milljarða króna.

Nokkur aðdragandi hafði verið að kaupunum en NIBC var einn fyrsti bankinn í Evrópu sem varð fyrir barðinu á svokölluðum undirmálslánum á fasteignamarkaðinum í Bandaríkjunum. Tap bankans á þeim gerði það meðal annars að verkum að eigandi bankans, bandaríski fjárfestingasjóðurinn JC Flowers, vildi selja.

Fljótlega eftir að kaupin voru ákveðin var sótt um heimild til þeirra til Fjármálaeftirlitsins. FME hefur tekið sér dágóðann tíma til að kanna málið, eða hátt í fjóra mánuði. Hinsvegar lá fyrir að FME væri að falla á tíma með álit sitt. Þeim hefði að öllu eðlilegu borið að gefa út álit sitt í síðasta lagi í dag eða fyrir opnun markaða í fyrramálið. Einfaldlega sökum þess að Kaupþing tilkynnir um ársuppgjör sitt á morgun.

Sökum óróans og óvissunnar á fjármálamörkuðum heimsins á síðustu mánuðum síðasta árs urðu þær raddir háværari um að Kaupþing hefði ekki bolmagn til að standa við kaupin á NIBC. Þær raddir urðu svo háværari eftir áramótin. Hlutir í Kaupþingi féllu sem og hjá öllum félögum sem mynda úrvalsvísitöluna. Þá hjálpaði ekki til að tryggingarálagið á skuldabréf Kaupþings rauk upp í áður óþekktar hæðir eða yfir 500 púnkta.

Nú stendur Kaupþing hinsvegar eftir nokkuð sterkt á svellinu. Það að hætt hafi verið við kaupin þýðir að Kaupþing er með góða lausafjárstöðu, hlutir í bankanum eru á uppleið og skuldabréfaálagið hefur þegar lækkað um 125 púnkta í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×