Viðskipti innlent

Hagnaður Straums nam rúmum 14 milljörðum kr.

Hagnaður Straums eftir skatta árið 2007 nam 162,9 milljónum evra eða 14,3 milljörðum króna.

"Þrátt fyrir óvenjulega erfiðar markaðsaðstæður á seinni helmingi ársins skiluðum við viðunandi hagnaði yfir árið og bjuggum í árslok að öflugum fjárhag og sterkri lausafjárstöðu," segir William Fall forstjóri í tilkynningu um uppgjörið.

 

Mikil aukning vaxta- og þóknunartekna á árinu er í samræmi við stefnu bankans. Þóknunartekjur hækkuðu um 56% milli ára og námu 40% af rekstrartekjum. Vaxtatekjur hækkuðu um 62% milli ára. Áhersla var lögð á að styrkja stöðuga tekjustofna en markvisst dregið úr vægi hlutabréfa í eignasafni bankans í því skyni að draga úr áhættu.

 

Hreinar þóknunartekjur samstæðunnar jukust um 55,5% á milli ára og námu 131,3 milljónum evra eða 11,5 milljörðum króna. Það samsvarar 39,8% af rekstrartekjum.

 

Hreinar vaxtatekjur jukust um 61,8% á milli ára og námu 68,8 milljónum evra eða liðlega 6 milljörðum króna. Það samsvarar 20,9% af rekstrartekjum.

 

Gengishagnaður nam 111,4 milljónum evra eða 9,8 milljörðum króna samanborið við 392,3 milljónir evra árið 2006. Umskiptin má að miklu leyti rekja til erfiðra markaðsskilyrða fyrir eigin viðskipti og niðurfærslu á fjárfestingabók vegna lækkunar á markaðsverði hlutabréfa á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×