Viðskipti innlent

Skipti áfram með í baráttunni um slóvenska símann

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, er hóflega bjartsýnn á framhaldið varðandi kaup á slóvenska símanum.
Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, er hóflega bjartsýnn á framhaldið varðandi kaup á slóvenska símanum. MYND/Róbert

Einkavæðingarnefnd slóvensku ríkisstjórnarinnar hefur ákveðið að ganga til viðræðna við Skipti annars vegar og fjárfestingarsjóðina Bain Capital og Axos Capital hins vegar, sem buðu sameiginlega í félagið, um kaup á Telekom Slovenije.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skiptum, móðurfélags Símans. Þar segir enn fremur að nefndin hafi tekið þessa ákvörðun á grundvelli tilboða sem félögin lögðu fram fyrr í dag. Þriðja fyrirtækið, hið ungverska Magyar Telekom, var einnig með í kapphlaupinu um slóvenska símann en það hefur nú helst úr lestinni.

Slóvenska ríkið stefnir að því að selja tæplega 50 prósent hlut í Telekom Slovenije til kjölfestufjárfestis, sem mun í kjölfarið þurfa að gera öðrum hluthöfum í félaginu yfirtökutilboð. Slóvenska ríkið hyggst þó halda eftir fjórðungshlut í félaginu.

Haft er eftir Brynjólfi Bjarnasyni, forstjóra Skipta, í tilkynningunni að forsvarsmenn Skipta séu hóflega bjartsýn eftir þessa niðurstöðu nefndarinnar. „Nú göngum við til viðræðna við Einkavæðingarnefndina og væntum þess að niðurstaða liggi fyrir fljótlega. Frekari dráttur málsins er hins vegar óheppilegur vegna fyrirhugaðrar skráningar Skipta í OMX Kauphöllina."

Eins og kunnugt er veitti fjármálaráðherra eigendum Skipta frest til þess að setja félagið á markað til loka mars. Samkvæmt samningi sem gerður var við sölu Símans árið 2005 áttu Skipti að fara á markað fyrir árslok 2007 þar sem almennum fjárfestum yrði gefinn kostur á að kaupa um 30 prósent í félaginu. Vegna þátttöku í einkavæðingu slóvenska símans, þar sem Skipti eru bundin trúnaði varðandi ýmsar upplýsingar, var ákveðið að leyfa félaginu að fresta skráningu sinni á markað.

 

Telekom Slovenije er leiðandi fjarskiptafyrirtæki í Slóveníu, auk þess að vera með vaxandi starfsemi í nágrannalöndunum. Hjá félaginu starfa um 4.400 starfsmenn. Tekjur félagsins á fyrstu 9 mánuðum ársins 2007 námu alls um 54 milljörðum króna og hagnaður félagsins fyrir skatta nam um 9,4 milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×