Viðskipti innlent

Alrangt að íslenskir fjárfestar hafi tapað á Capinordic

Forstöðumaður upplýsingasviðs fasteignafélagsins Landic Property segir það alrangt að íslenskir fjárfestar hafi tapað á fjárfestingu í fjármálafyrirtækinu Capinordic. Þvert á móti hafi félagið hagnast verulega á bréfunum í félaginu.

Fram kom í frétt danska viðskiptablaðsins Börsen fyrr í vikunni að hópur evrópskra fjárfesta hefði keypt síðustu bréf fasteignafélagsins Keops í Capinordic fyrir skemmstu og að Íslendingar á bak við félögin Keops og Stoðir, sem sameinuðust í Landic Property í haust, hefðu tapa milljarði á sölunni.

Þessu hafnar Páll Benediktsson, forstöðumaður upplýsingasviðs Landic. Hann segir frétt Börsen kolranga þar sem öllu sé snúið á haus. Börsen áætli hvað fengist hafi fyrir bréfin í Capinordic og miði við hvað hefði getað fengist fyrir þau í haust þegar gengið var hærra. Hins vegar hafi bréfin verið keypt miklu fyrr og á lægra gengi en selt hafi verið á. „Ég fullyrði því að félagið hafi hagnast verulega á bréfunum í Capinordic," segir Páll.

Páll bendir enn fremur á að þegar Stoðir yfirtóku Keops í haust og Landic Property var myndað hafi verið gefið út að allur hluturinn í Capinordic yrði seldur þar sem hann samdræmdist ekki viðskiptahugmynd Landic. „Capinordic er fjármálafyrirtæki en Landic einbeitir sér að eign og útleigu á fasteignum fyrir skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Það lá því fyrir frá því í haust að allur hluturinn í Capinordic yrði seldur," segir Páll og bendir á að ekki sé verið að selja bréfin vegna lækkandi hlutabréfaverðs um allan heim eins og ýjað hafi verið að.

Landic Property er eitt allra stærsta fasteignafélag Norðurlanda með eignir á Íslandi, Danmörku, Svíþjóð og í Finnlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×