Viðskipti erlent

Þýskaland telst nú vera komið í kreppu

Ljóst er að Þýskaland telst nú vera í kreppu. Landsframleiðsla dróst saman í Þýskalandi á þriðja ársfjórðungi um meira en búist hafði verið við eða um 0,5% frá fyrri fjórðungi. Búist hafði verið við 0,2% samdrætti.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að á öðrum ársfjórðungi dróst landsframleiðsla saman um 0,4% frá fyrsta ársfjórðungi. Þar með er ljóst að Þýskaland telst nú vera í kreppu en skilgreining efnahagskreppu er sú að landsframleiðsla dragist saman tvo ársfjórðunga í röð. Þetta hefur ekki gerst í Þýskalandi síðan 2003.

Samdráttinn má rekja til minnkandi útflutnings en þýsk fyrirtæki keppast nú við að draga úr umsvifum sínum til að bregðast við minnkandi eftirspurn á heimsvísu. Samdráttur í útflutningi náði ekki að vega á móti vexti í einkaneyslu á tímabilinu.

Hið þýska Siemens, flaggskip evrópsks iðnaðar áætlar að 16.750 þúsund störf verði skorin niður fyrir árið 2010. Hlutabréfa hafa fallið í verði um 40% í Þýskalandi það sem af er ári. Þá eru horfurnar taldar vera fremur dökkar og búist er við að landsframleiðsla dragist saman um 1% á næsta ári.

Þar sem Þýskaland er stærsta hagkerfi Evrópu mun það hafa áhrif á hagvöxt á evrusvæðinu og víðar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×