Viðskipti erlent

Pólskir blaðberar gerðu aðsúg að Morten Lund

Kalla þurfti lögregluna til þegar Morten Lund eigandi Nyhedsavisen ætlaði að fund með starfsmönnum útgáfunnar í Kaupmannahöfn morgun. Pólskir blaðberar sem misst hafa vinnu sína gerðu aðsúg að Lund sem slapp við illan leik inn á skrifstofur blaðsins.

Í ljós hefur komið að hvorki 50 blaðamenn Nyhedsavisen né um 300 blaðberar þess fengu greidd laun sín fyrir ágústmánuð í morgun. Og þegar Morten Lund er spurður um hvernig hann ætli að bjarga þessum launagreiðslum verður fátt um svör að því er fram kemur í dönskum fjölmiðlum. Blaðberarnir eru að stærstum hluta frá Austur-Evrópu, einkum Póllandi.

Dauði Nyhedsavisen hefur verið helsta frétt morgunsins í dönskum fjölmiðlum. Í Börsen segir m.a. að samkeppnisaðilum blaðsins sé létt. Raunar skín í gegnum umfjöllun Börsen og Business.dk að eigendur stærstu dagblaða Danmerkur geti vart leynt kæti sinni yfir því að Nyhedsavisen heyri nú sögunni til.

Sjálfur er Morten Lund í slæmu skapi í dag ef marka má færslur hans á netinu í morgun þar á meðal Facebook síðu hans. Þar segir hann: "Fuck ég varð að stoppa blaðið mitt - Ég hata, Hata, HATA að tapa."

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×