Viðskipti erlent

Óttaðist að Kaupþing ynni skemmdarverk á Storebrandsölunni

Skilanefnd Kaupþings á Íslandi og skiptastjóri Kaupþings í Noregi eru komin í hár saman vegna sölunnar á 5,5% hlut Kaupþings í Storebrand. Samkvæmt frétt á vefsíðunni E24.no óttast skiptastjórinn að skilanefndin vinni skemmdarverk á sölunni.

Eins og kunnugt er af fréttum á visir.is var framangreindur hlutur settur til sölu síðdegis í gær. Salan var svo stöðvuð í morgun vegna deilu um hvort aðilinn hefði rétt á að selja hlutinn.

Bjarne Borgersen skiptastjóri Kaupþings í Noregi segir í samtali við E24.no að þeir séu ekki í vafa um að þrotabúið hafi rétt á að selja hlutinn en... "það séu Íslendingarnir ekki sammála um," segir Bjarne. Hluturinn, sem metinn er á sex milljarða kr. átti að vera í sölu fram í næstu viku.

Þessi nýja staða hefur leitt til þess að þrotabúið óttaðist að skilanefnd Kaupþings myndi vinna skemmdarverk á sölunni.

"Við óttuðumst að áhættan væri of mikil fyrir markaðinn," segir Bjarne um ástæðu þess að salan var stöðvuð. "Og við óttuðumst að skilanefndin á Íslandi myndi reyna að stöðva söluna þannig að við gætum ekki staðið við skuldbindingar okkar."

Ekki náðist tal af Steinari Þór Guðgeirssyni við vinnslu fréttarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×