Viðskipti innlent

Skipti tapa vegna gengisþróunar íslensku krónunnar

Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta.
Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta. MYND/Stefán

Skipti, móðurfélag Símans, tapaði 3,6 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi og er það fyrst og fremst vegna gengisþróunar íslensku krónunnar. Til samanburður var hagnaðurinn 1,4 milljarðar á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir einnig að salan á tímabilinu hafi aukist um 1,5 milljarða króna eða fimmtung á milli ára og nam hún samtals 8,9 milljörðum króna. Fjármagnsgjöld reyndust 5,5 milljarðar króna en þar af nam gengistap 4,4 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall Skipta reyndist er 30,4 prósent.

Fyrsti ársfjórðungur var nokkuð viðburðarríkur fyrir Skipti því félagið fór í hlutafjárútboð og var skráð á markað í samræmi við ákvæði samnings um sölu Símans fyrir þremur árum. Hlutabréf voru tekin til viðskipta 19. mars en sama dag tilkynnti Exista, stærsti hluthafinn, að hann myndi gera yfirtökutilboð í Skipti. Þá gerðu Skipti tilboð í slóvenska fjarskiptafélagið Telekom Slovenije en slóvenska ríkið tilkynnti síðar að félagið yrði ekki selt að svo stöddu. Skipti var annar tveggja bjóðenda í félagið.

„Þetta hefur verið viðburðaríkt tímabil hjá Skiptum og ánægjulegt að góð afkoma er af reglulegri starfsemi hvort sem litið er til fjarskipta eða upplýsingatækni. Gengisþróun íslensku krónunnar hefur hins vegar verið okkur afar óhagstæð og þrátt fyrir gengisvarnir félagsins skýrir veiking krónunnar tapið sem er á tímabilinu.

Framundan eru krefjandi tímar fyrir stjórnendur og starfsfólk þar sem búast má við almennt minnkandi eftirspurn á Íslandi vegna þróunar efnahagsmála. Á slíkum tímum má hins vegar oft finna tækifæri fyrir fjárhagslega sterk félög á borð við Skipti og við munum fylgjast grannt með þróun mála á markaði næstu mánuði og misseri," segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×