Viðskipti innlent

Kaupþing og Bakkabræður slíðra sverðin

Lýður og Ágúst Guðmundssynir.
Lýður og Ágúst Guðmundssynir.

Kaupþing og Exista eiga nú í viðræðum um lausn á þeim ágreiningi sem upp var kominn milli þeirra. Gengi hlutabréfa í Existu hrundi í morgun.

Forsagan er sú að bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, eigendur Bakkavarar, ákváðu að leggja Existu til einn milljarð króna í reiðufé í flóknum viðskiptum með tvö óskráð félög í þeirra eigu, Kvakki ehf og BBR ehf. Í framhaldinu eignuðust þeir 88 prósent af Exista.

Samhliða því var lögð fram tillaga um um heimild til hlutafjáraukningar í formi forgangsréttarútboðs til hluthafa á næsta ári. Þar sem um yfirtökutilboð var að ræða af hálfu þeirra bræðra sótti Exista um undanþágu til Fjármáleftirlitsins um lágmarksverð í yfirtökutilboði.

Stjórn Nýja Kaupþings banka vildi ekki una sölunni, enda hafði stjórn bankans undirbúið ferli sem miðaði að því að taka yfir stjórn Exista í því skyni að verja hagsmuni bankans. Harðorð yfirlýsing var send fjölmiðlum í gær vegna málsins.

Nú hafa menn hins vegar breytt afstöðu sinni og er vilji beggja sagður vera að finna viðunandi lausn. Því mun Kaupþing ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu, segir talsmaður bankans. / Gengi hlutabréfa í Existu hrundi um 97,8 prósent við upphaf viðskiptadagsins í Kauphöllinni, en engin viðskipti hafa verið með bréf félagsins í rúma tvö mánuði.

Fyrsta sölutilboð í bréf Existu hljóðaði upp á 1,99 krónur á hlut en lækkaði hratt og stóð nú fyrir hádegið í litlum 10 aurum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×