Viðskipti erlent

Mál Yahoo! og Microsoft í járnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jerry Yang.
Jerry Yang. MYND/AP

Tilraunir auðkýfingsins Carls Icahns til að kaupa hugbúnaðarfyrirtækið Yahoo! í samvinnu við Microsoft eru að margra mati orðnar að óskiljanlegri flækju.

Í fyrradag sendi Yahoo! öllum hluthöfum sínum bréf þar sem þeir voru beðnir að láta ekki blekkjast af fjölmiðlaáróðri Microsoft og Carls Icahns sem látið hafa í veðri vaka við alla fjölmiðla sem heyra vilja að Yahoo! sé komið að fótum fram og beri ekki barr sitt í samkeppninni við Google og fleiri risa sem haslað hafa sér völl á leitarvélamarkaðnum síðustu misseri.

Jerry Yang, forstjóri og stofnandi Yahoo!, skellir skollaeyrunum við málflutningi tvíeykisins sem þyrstir svo mjög í að kaupa veldi hans og vísar í fleyg ummæli Sean Connery í kvikmyndinni The Untouchables frá 1987 um að ekki þyki góð latína að mæta með hníf í byssubardaga.

Yang segist sannfærður um að það eina sem vaki fyrir Icahn með kaupum á Yahoo! sé að selja Microsoft fyrirtækið en nýjustu skilaboðin frá Microsoft-mógúlnum Bill Gates eru á þá leið að fyrirtæki hans sé meira en tilbúið að kaupa Yahoo! - þó með því eina skilyrði að Icahn komi fyrst Jerry Yang og allri stjórn hans frá völdum þar. Spyrjum að leikslokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×