Lífið

Teflir almættinu fram gegn eignarskattinum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Myndin tengist ekki þessari frétt.
Myndin tengist ekki þessari frétt.

Auðmaður í Lake Bluff nálægt Chicago fann þægilega smugu til að losna undan sex milljóna króna eignarskatti á 600 fermetra glæsivillu sína.

George Michael, þó ekki tónlistarmaðurinn góðkunni, þótti fullmikið af því góða að greiða 80.000 bandaríkjadali í eignarskatt af glæsilegu húsnæði sínu í úthverfi Chicago. Hann gerði sér því lítið fyrir og nældi sér í guðfræðigráðu í fjarnámi á Netinu.

Það næsta sem nágrannar hans vissu var að stærðarinnar kross var kominn utan á hús nágranna þeirra og það var ekki lengur skráð sem íbúðarhúsnæði heldur armenska kirkjan í Lake Bluff, guðshús þar sem séra George Michael þjónaði fyrir altari - og bjó reyndar í kjallaranum ásamt fjölskyldu sinni en slíkt er fullkomlega löglegt og heitir þá einfaldlega prestsetur.

Bæjarstjórnin stendur nú á öndinni yfir því að verða af sex milljóna króna eignarskatti frá þessum kunna broddborgara sveitarinnar en getur svo sem lítið annað gert en leggjast á bæn. Þó eygir bærinn þá von að geta sektað Michael um 115.000 dali, mun hærri upphæð en eignarskatturinn, fyrir að hefja rekstur guðshúss án allra leyfa. En slíkt kostar langvinn og dýr réttarhöld ásamt málsrannsókn og síðast þegar fréttist voru vegir guðs órannsakanlegir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.