Viðskipti erlent

Skuldir vegna SMS-lána hlaðast upp í Finnlandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Finnskar fjármálastofnanir riðu fyrir þremur árum á vaðið með SMS-lán, nýja kynslóð bankalána sem afgreidd eru á þremur mínútum. Nú er svo komið að skuldir tengdar þessum lánum eru orðnar 20 prósent vandræðaskulda Finna og vinnur finnska ríkisstjórnin nú að því að koma reglugerðarákvæðum yfir SMS-lánin sem nú breiðast sem eldur í sinu um Norður-Evrópu.

Vextirnir af SMS-láni eru sáralitlir, að minnsta kosti á íslenskan mælikvarða, um 1,6 prósent. Hins vegar greiðir lántakinn lántökugjald sem er að jafnaði um fjórðungur lánsupphæðarinnar. Framkvæmdin er ekki flókin. Sá sem sækist eftir SMS-láni sendir SMS-skilaboð, eins og nafnið gefur til kynna, til bankans þar sem hann tilgreinir þá upphæð sem óskað er eftir, heimilisfang sitt, ákveðið auðkennisnúmer og númer bankareiknings. Lánveitandinn slær honum upp í gagnagrunni til að kanna hvort lánstraust ríki og millifærir svo umbeðna upphæð án frekari tafa.

Afgreiðsla lánsins gengur hratt fyrir sig en yfirleitt er gert ráð fyrir að lánið sé gert upp mánuði síðar. Sé lántökugjaldið umreiknað til vaxtaprósentu samsvarar þetta 621 prósent vöxtum á ársgrundvelli, tala sem jafnvel myndi hljóma há á Íslandi. Finnum virðist ekki þykja það nein ósköp þar sem þeir tóku 270.000 SMS-lán á fyrsta fjórðungi þessa árs.

Bloomberg greindi frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×