Viðskipti innlent

Viðskiptaráð segir gjaldeyrissamkomulag gott fyrsta skref

Erlendur Hjaltason er formaður Viðskiptaráðs.
Erlendur Hjaltason er formaður Viðskiptaráðs. MYND/Anton

Viðskiptaráð fagnar samkomulagi Seðlabanka Íslands við Seðlabanka Svíðþjóðar, Noregs og Danmerkur um tvíhliða gjaldeyrisskiptasamninga og segir þá mikilvægt fyrsta skref til að efla trúverðugleika bankans og íslensks hagkerfis.

Enn fremur fagnar Viðskiptaráð þeirri tilkynningu að aukið verði enn frekar við aðgang bankans að erlendu lausafé í náinni framtíð. Í tilkynningu Viðskiptaráðs er bent á að íslenska bankakerfið hafi vaxið hratt og því sé afar mikilvægt að innviðir og stofnanaumgjörð hérlendis taki mið af því.

Viðskiptaráð telur enn fremur skynsamlegt að ríkissjóður leitist eftir erlendri lántöku í samstarfi við Seðlabanka Íslands til að auka gjaldeyrisforða verulega og stórefla styrk Seðlabanka Íslands. „Aðgerðir sem þessar eru ekki einungis mikilvægar til að efla traust á íslenskum fjármálafyrirtækjum heldur einnig á hagkerfinu öllu. Þetta er því nauðsynlegt skref í baráttunni gegn verðbólgu og ætti að gera Seðlabanka Íslands kleift að lækka vexti fyrr og hraðar en ella," segir í tilkynningu Viðskiptaráðs.

Enn fremur fagnar Viðskiptaráð tilkynningu Geirs H. Haarde um fyrirhugaðar breytingar og umbætur á skipulagi Íbúðalánasjóðs. Ráðið tekur undir þau orð ráðherra að með því sé hægt að bæta virkni peningastefnunnar til muna og þar með styrkja framtíðargrundvöll íslensku krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×