Viðskipti innlent

Peningarnir ekki fengnir úr Landsbankanum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson.
Það hefur ekkert breyst varðandi eignarhald á fjölmiðlum 365 frá því á föstudag, segir Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður 365 hf og stofnandi Rauðsólar.

Sagt var frá því í fréttum RÚV á sunnudag að Rauðsól, félag í eigu Jóns Ásgeirs, myndi taka yfir fjölmiðlahluta 365. Síðan þá hafa menn lýst yfir áhyggjum sínum af því að samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla myndi aukast.

„Þetta er alveg fráleit umræða. Það er verið að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti með því að koma með nýjan pening inn. Það er ekkert að breytast í eigendahópnum," segir Jón Ásgeir. Jón Ásgeir segir að flestir hluthafarnir í 365 hf. hafi lýst yfir áhuga á því að koma með hlutafé inn í Rauðsól, en nefndi ekki hverjir þeir væru.

Jón Ásgeir segir að þær 1450 milljónir sem greiddar verði séu ekki fengnar með veði. „Það er ekki verið að fá lánað út á hlutabréfin í þessu félagi. Þetta er að koma inn sem eigið fé , ekki hlutafé," segir Jón. Hann segir að peningarnir komi ekki úr Landsbankanum, en vill ekki segja til um hvaðan þeir koma að öðru leyti en því að hluti þeirra komi erlendis frá.

Jón Ásgeir segir að umræðan á Alþingi í dag um þessi umræddu viðskipti sé alveg fáránleg. „Talandi um brunaútsölu. Hvaða rugl er þetta? Það er verið að taka allar skuldir Landsbankans yfir. Og að kenna Landsbankanum um það að fá hluthafa til þess að setja nýtt hlutafé inn í fyrirtækin sín er náttúrulega fáránlegt. Það er eins og þingmenn séu að óska eftir því að fyrirtæki séu sett á hausinn," segir Jón Ásgeir. „Ég er einfaldlega að koma með 1500 milljónir til að bjarga þessu félagi frá gjaldþroti. Og hvernig hefði nú landslagið verið ef það hefði gerst, þá hefðum við bara haft ríkisfjölmiðlana," segir Jón Ásgeir.

Jón Ásgeir segir að það sé geigvænlegt ef menn fari inn á þing eins og staðan er núna í efnahagslífinu og hafi ekki upplýsingar um mál og séu að eyða tíma í þinginu í það að fara með hluti sem séu einfaldlega rangir.








Tengdar fréttir

Rætt um Rauðsól á Alþingi

Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins hóf umræðu utan dagskrár í dag um stöðu fjölmiðla á landinu í ljósi frétta af kaupum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á fjölmiðlahluta 365. Hann spurði hvort að um brunaútsölu væri að ræða og hvort rétt sé að það sé ríkisbankinn Landsbankinn sem standi á bak við kaupin. Guðni spurði hvort ekki væri réttara að skipta fjölmiðlunum upp og selja.

Róbert: Fyrirferð RÚV á aulýsingamarkaði veikir lýðræðið

Róbert Marshall, varaþingmaður Samfylkingarinnar segir að fyrirferð Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði valdi samþjöppun einkarekinna miðla og veiki lýðræðið. Þetta kom fram í máli hans á Alþingi í dag þar sem rætt var um stöðuna á fjölmiðlamarkaði. Róbert fullyrti í sömu ræðu að forstjóri 365 miðla vilji ákveða sjálfur hverjir vinni á fréttastofu og á Fréttablaðinu. Ari Edwald, forstjóri 365, segir slíkt ekki viðhaft hjá 365. Þar hafi stjórnendur sjálfræði um sitt mannahald.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×