Erlent

Samsteypustjórn í Úkraínu fallin

Samsteypustjórn flokkanna sem gerðu appelsínugulu byltinguna í Úkraínu fyrir fjórum árum er fallin.

Þó að Jústsénko forseti og Tymosénko forsætisráðherra hafi staðið þétt saman spennudaga appelsínugulu byltingarinnar þá voru þau aldrei samrýmd. Undanfarið ár hafa þau beinlínis borist á banaspjót. Tilkynning þingforseta í morgun um stjórnarslitin kom því ekki á óvart.

Jústsénko forseti hefur viljað taka Úkraínu hratt í áttina að Evrópusambandinu og NATO. Janúkovits, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hallast að Rússum en Tymosénko forsætisráðherra hefur viljað fara varlega. Landið er í raun klofið milli þessara sjónvarmiða enda mikil samkennd með Rússlandi í austurhéruðum Úkraínu. Þar býr bæði fjöldi manna sem talar rússnesku en ekki úkraínsku og enn fleiri sem tilheyra rétttrúnaðarkirkjunni en ekki þeirri kaþólsku, sem er sterkust vestast í Úkraínu.

Uppgjörið milli forsetans og forsætisráðherrans nú tengist afstöðunni til innrásar Rússa í Georgíu. Forsetinn vildi bregðast við með einörðum stuðningi við Georgíumenn en forsætisráðherrann sakaði hann um að draga Úkraínu inn í stríðið. Hún stóð með stjórnarandstöðunni að breytingum á stjórnarskránni, í þá átt að takmarka völd forseta sem kallaði það tilraun til stjórnarbyltingar. Óljóst er hvað gerist nú í þessu fimmtíu milljóna manna landi þar sem raunverulegt lýðræði er ekki nema fjögurra ára gamalt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×