Viðskipti erlent

Seychelles-eyjar fá IMF lán

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur samþykkt að veita Seychelles-eyjum milljónalán til að taka á efnahagsvanda sínum. Enn bólar ekkert á ákvörðun um lán til Íslands. Greint var frá því í dag að sjóðurinn hefði ákveðið að lána Seychelles-eyjum á Indlandshafi tuttugu og sex milljóna dala lán vegna þeirra þrenginga sem þetta skuldum vafða eyríki væri í.

Pierre Laporte, Seðlabankastjóri Seychelles-eyja, segir að lán sjóðsins eitt og sér dugi ekki til að leysa vandann en skuldirnar munu nema um átta hundruð milljónum bandaríkjadala. Laporte segist vona að lánveitingin opin fyrir frekari fyrirgreiðslu frá ríkjum heims.

Pakistanar hafa einnig samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um lán upp á sjö komma sex milljónir dala hið minnsta til að bjarga efnahag Pakistans. Formlega verður sótt um lánið eftir helgi og búist við að það verði afgreitt í lok mánaðarins.

Enn er allt á huldu með lán sjóðsins til Íslands. Málið strandar á lausn Icesave-deilunnar við Breta og Hollendinga. Á meðan staðan er sú fjölgar í hópi þeirra sem fá fé úr sjóðnum á undan Íslendingum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×