Viðskipti innlent

Telur jafnvægisgengi krónunnar á bilinu 135-145

Greining Glitnis telur að jafnvægisgengi krónunnar á næstu árum muni liggja á bilinu 135-145. Sem stendur er gengisvísitalan í um 170 stigum. Fjallað er um gengið í Morgunkorni greiningarinnar.

 

Miðað við ákveðnar forsendur og samband verðlags og nafngengis krónu við raungengið, telur greiningin að gengisvísitala krónu sem samrýmist ytra jafnvægi þjóðarbúsins núna og á allra næstu árum liggi á bilinu 135-145.

„Miðað við það virðist ljóst að þótt leiðréttingar hafi verið þörf á gengi krónu eftir tímabil hágengis og mikils ytra ójafnvægis er nú um yfirskot að ræða í þeirri miklu gengisveikingu sem orðið hefur frá síðustu áramótum," segir í Morgunkorninu.

„Slíkt yfirskot getur hins vegar varað talsvert lengi, sér í lagi þegar aðstæður bæði á heimsvísu sem á hérlendum gjaldeyrismarkaði eru jafn óvenjulegar og raun ber vitni, og gerum við því ekki ráð fyrir að krónan leiti jafnvægis fyrr en alþjóðlegu lánsfjárkrísunni fer að linna og markaðir að færast nær eðlilegu horfi."

Hvað forsendurnar varðar segir greiningin að útlit sé hinsvegar fyrir að verð útflutningsvara haldist hátt og hrávöru- og eldsneytisverð láti heldur undan síga á komandi árum frá núverandi gildum. Þá er talið að framþróun hagkerfa leiði að öðru jöfnu til þess að jafnvægisraungengi þeirra hækkar í samanburði við önnur lönd þar sem þróunin er hægari.

Miðað við þær grundvallarbreytingar sem orðið hafa á íslensku efnahagslífi undanfarin 20 ár og þann myndarlega vöxt sem fylgt hefur, má álykta að slík þróun hafi að einhverju marki átt sér stað hérlendis, þótt ekki sé rétt að gera ráð fyrir miklum breytingum af þessum sökum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×