Viðskipti erlent

Landic semur við borgaryfirvöld í Árósum um Lighthouse

Landic Property átti fund með borgaryfirvöldum í Árósum í morgun um Lighthouse verkefnið á hafnarsvæði borgarinnar. Páll Benediktsson fjölmiðlafulltrúi Landic segir að fundurinn hafi verið mjög jákvæður og von sé á fréttatilkynningu frá borgarstjórn um málið síðar í dag.

Í frétt af málinu á visir.is í gær kom fram að Árósaborg hafi gefið Landic frest fram á mánudag til að borga 9 milljarða kr. fyrir lóðirnar. Þetta er ekki rétt að sögn Páls heldur hafi verið um afborgun upp á 3 milljarða kr. að ræða en 9 milljarðar kr. séu heildargreiðslan fyrir lóðina.

"Niðurstaða fundarins í morgun var sú að við fengum vikufrest til að ganga frá þessari afborgun," segir Páll. "Við erum nú að ganga frá fjármögnun á þessari upphæð."

Páll segir að Lighthouse-verkefnið hafi verið skorið verulega niður frá upphaflegu áætlununum. Þannig sé bygging hæsta háhýsis í Danmörku ekki lengur inni í myndinni en sá turn átti að verða 142 metrar á hæð.

"Við munum eftir sem áður byggja hótel og tvær íbúðablokkir á þessari lóð á hafnarsvæðinu í Árósum," segir Páll. "Og við munu gera það í góðri samvinnu við borgaryfirvöld."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×