Viðskipti innlent

Guðjón ráðinn forstjóri Hamley´s

Hamley´s er styrktaraðili Williams í formúlu 1 kappakstri
Hamley´s er styrktaraðili Williams í formúlu 1 kappakstri

Guðjón Karl Reynisson, fyrrverandi framkvæmdastjóri 10-11, hefur verið ráðinn forstjóri bresku leikfangakeðjunnar Hamley´s og tekur við starfinu af Nick Mather, í byrjun maímánaðar.

Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group, sem er eigandi að Hamley´s, segir félagið hafa vantað nýjan forstjóra þar sem Nick Mather, sem verið hefur forstjóri Hamley´s síðastliðin tvö ár og fjármálastjóri félagsins þar á undan, ákvað að láta af störfum til að skoða ný tækifæri og þvertekur fyrir að Mather hafi verið sagt upp störfum. "Nick hefur gert góða hluti fyrir Hamley´s enda félagið verið á mikilli siglingu að undanförnu," segir Gunnar. Hann segir Guðjón strax hafa komið til greina sem eftirmaður Mather enda gert mjög góða hluti með 10-11 verslanirnar.

Hvað reynsluleysi Guðjóns á leikfangamarkaðinum og þar að auki á breska markaðinum varðar, segir Gunnar að innan Hamley´s sé öflugt og ferskt lið sem þekki geirann inn og út, það sé hans trú að persónuleiki Guðjóns, reynsla í rekstri, ferskleiki og dugnaður, eins og Gunnar orðar það, henti vel inn í þann hóp sem þarna fer. Guðjón hefur störf í byrjun maímánaðar og hefur Sigurður Reynaldsson, nú þegar tekið við starfi hans sem framkvæmdastjóri 10-11 búðanna.

Hamley´s veltir í kringum 10 milljörðum króna á ári og var hagnaður félagsins á síðasta ári um hálfur milljarður íslenskra króna. Alls eru verslanirnar orðnar 15 talsins, þrjár í Danmörku, eins á Regent stræti í Lundúnum, sex í verslunum House of Fraser, sem eru í einnig eigu Baugs, þá eru fjórar flugvallarbúðir og ein á lestarstöð í Lundúnum. Og nóg verður að gera hjá Guðjóni því fyrirhugað er að opna þrjár Hamley´s verslanir til viðbótar á næstunni, eina í Jórdaníu í júní og eina í Dubai í desember. "Síðan er verið að skoða fleiri tækifæri í öðrum löndum," segir Gunnar.

Guðjón er íþróttakennari að mennt auk þess sem hann lauk rekstrar- og viðskiptanámi frá EHÍ árið 2000 og MBA gráðu frá Háskóla Íslands árið 2002.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×