Viðskipti innlent

Makrílinn er 5,3 milljarða kr. búbót fyrir sjávarútveginn

Miðað við að útflutningsverðmæti af hverju tonni af makríl sé nálægt 50 þúsund kr. fyrir hvert tonn til vinnslu á mjöli og lýsi má gera ráð fyrir að útflutningsverðmæti makrílaflans í ár sé nú orðið um 5,3 milljarða kr.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að makríllinn muni hafa jákvæð áhrif á vöruskiptajöfnuðinn. Á móti kemur að veiðar á kolmunna hafa gengið treglegar í ár heldur en á fyrri árum. Það skýrist m.a. af því að fyrirtækin hafa sótt minna vegna hás olíuverðs.

Íslensku uppsjávarveiðifyrirtækin hafa veitt 108 þúsund tonn af makríl það sem af er árinu en líklegt er að lítið muni veiðast til viðbótar á þessu ári. Þetta er mikil aukning frá árinu 2007 þegar veiddust ríflega 36 þúsund tonn.

Makríllinn hefur mest veiðst í júlí og ágúst samhliða veiðum íslensku skipanna á norsk-íslenskri síld. Greining segir að makrílaflinn er kærkomin búbót fyrir sjávarútvegsfyrirtækin þar sem hann nýtist vel í mjöl- og lýsisframleiðslu auk þess sem hátt verð fæst fyrir frystan makríl. Þá hefur veik staða krónunnar einnig hjálpað til. Stærstur hluti aflans hefur þó farið í bræðslu. Þar sem makríll er ný nytjategund í íslenskri lögsögu hefur ekki verið gefinn út kvóti enn sem komið er.

Ef makríll heldur áfram að ganga inn í íslenska lögsögu mun hins vegar væntanlega verða gefinn út kvóti sem byggður er á aflareynslu. Það skýrir m.a. hvers vegna stærstur hluti aflans hefur farið til bræðslu þar sem hægast er um vik að veiða og vinna mikinn makrílafla þegar sá háttur er hafður á.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×