Viðskipti erlent

Viðskipti stöðvuð með hlutabréf Woolworths í morgun

Viðskipti með hlutabréf í Woolworths voru stöðvuð í morgun í kauphöllinni í London en ákafar samningaviðræður eru nú í gangi um að selja hluta af verslunarkeðjunni eða hana í heild sinni. Baugur á rúmlega 10% í Woolworths.

Í tilkynningu frá Woolworths segir að samningaviðræður séu í gangi um að selja 40% af keðjunni. Hinsvegar liggur þegar fyrir tilboð frá Hilco um að kaupa keðjuna á eitt pund en taka jafnframt yfir verulegan hluta af skuldum Woolworths.

Í frétt um málið í Timesonline segir að bæði tilboðin þurfi að koma til kasta banka þeirra sem Woolworths skuldar og það séu þeir sem ákveði endanlega hvoru tilboðinu verði tekið. Munu fulltrúar bankanna funda með forsvarsmönnum Woolworths um málið í dag.

Þegar viðskiptin með hlutabréfin voru stöðvuð voru þau komin niður í 1,22 pens eftir að hafa lækkað um 9% í gærdag. Miðað við þetta er markaðsvirði Woolworths 17,8 milljón pund eða 95% minna en nemur skuldunum sem eru upp á 385 milljón pund.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×