Viðskipti innlent

Árvakur og 365 ræddu samstarf að frumkvæði banka

Andri Ólafsson skrifar
Þór Sigfússon, stjórnarformaður Árvakurs
Þór Sigfússon, stjórnarformaður Árvakurs

Bæði Þór Sigfússon, stjórnarformaður Árvakurs, og Ari Edwald, forstjóri 365 staðfesta að þreifingar hafi verið á milli fjölmiðlafélaganna um samstarf.

Árvakur er útgáfufélag fjölmiðla á borð við Morgunblaðið, Mbl.is og 24 stundir. 365 á Fréttablaðið, Stöð 2 og Vísi.is.

Að sögn Þórs áttu fulltrúar fjármálastofnanna frumkvæðið að þessum þreifingum en bæði hann og Ari gefa lítið fyrir árangurinn af þessum viðræðum sem báðir ítreka að hafi verið afar óformlegar.

Samkvæmt heimildum Vísis hafa viðræður Árvakurs og 365 fyrst og fremst snúið að útgáfum fríblaðanna tveggja, 24 stunda og Fréttablaðsins, sem félögin hafa gefið út. Auglýsingatekjur blaðanna beggja hafa dregist töluvert saman á þessu ári og hafa eigendur þeirra leitað leiða til þess að draga úr kostnaði við dreifingu og prentun sem er langstærsti kostnaðarliður útgáfunnar.

Aðspurður hvort komið hafi til tals að Árvakur kaupi Fréttablaðið af 365 sagði Ari að það væri eitthvað sem kæmi ekki til greina. "Ég hef heyrt tal í þá veru að þreifingarnar gangi út á að Árvakur kaupi Fréttablaðið en sú umræða er á misskilningi byggð. Fréttablaðið er öflugasti prentmiðill landsins... og við höfum ekkert verið að velta því fyrir okkur að hætta afskiptum af því,"segir Ari

„Þetta voru þreifingar um samstarf og form á því. Það eru ýmsir möguleikar ef til samtarfs kæmi. En allar slíkar vangaveltur hafi ekki leitt til neinnar niðurstöðu," segir Ari Edwald.

Hann vill hins vegar lítið gefa upp um eðli þessara viðræðna. Hvort, hvenær og hversu oft hann hitti forsvarsmenn Árvakurs. Sama á við um Þór Sigfússon.

Þór segir að þótt engar viðræður séu í gangi á þessum tímapunkti vilji hann ekki slá þann möguleika út af borðinu að það verði í framtíðinni. „Það eru ýmsir möguleikar á samstarfi sem við viljum síst slá út af borðinu," segir hann.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×