Innlent

Nýtt mál, sömu sakborningar

Helgi Magnús Gunnarsson.
Helgi Magnús Gunnarsson.

Það eina sem er sammerkt með Baugsmálinu og ákærum á hendur Jóni Ásgeiri og skildum aðilum, sem birtar voru í gær, er að um sömu sakborningana er að ræða. Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari efnahagsbrotadeildar og hafnar því að í raun sé verið að gefa út þriðju ákæruna í Baugsmálinu, - um allt aðrar sakagiftir sé nú að ræða.

Ríkislögreglustjóri gaf í gær út ákæru á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Kristínu systur hans, Tryggva Jónssyni, Baugi og Gaumi fyrir meint skattalagabrot á árunum 1998 til 2002.

Á meðal þess sem Jón Ásgeir er ákærður fyrir er að hafa komið sér undan því að greiða tæpar 30 milljónir króna í tekjuskatt, útsvar og fjármagnstekjuskatt.

Í fréttum okkar í gær sagði Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs, með ákærunum vera á ferðinni gamla Baugsmálið sem hófst í ágúst 2002 þegar að það var gerð húsleit hjá Baugi. Og þetta því í rauninni þriðja ákæran sem að gefin er út í málinu.

Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari hjá efnhagsbrotadeild ríkislögreglustjóra alrangt. Þarna sé um allt aðrar ákærur að ræða fyrir allt önnur brot. Ekki hafi verið ákært í þeim áður og að þarna sé um að ræða meint skattalagabrot sem falli undir önnur refsiákvæði. Aðeins er um sömu sakborninga að ræða.

Málið hefur verið til meðferðar hjá efnahagsbrotadeildinni frá árinu 2004. Helgi segir æskilegt að mál taki sem skemmstan tíma í meðferð. Hins vegar hafi margir komið að málinu og að það hafi haft sitt að segja. Sakargiftirnar hafa meðal annars verið til meðferðar hjá yfirskattanefnd.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×