Innlent

Grýla gaus þegar skjálftinn reið yfir

Grýla í Ölfusdal, þekktasti goshver Hveragerðis og raunar einn nafntogaðasti hver landsins, gaus í fyrst sinn í mörg ár af eðlilegum orsökum stuttu eftir síðasta Suðurlandsskjálfta og hefur hverinn gosið reglulega síðan. Grýla hefur reyndar gosið nokkrum sinnum undanfarin ár en þá eingöngu með hjálp sápu. Diðrik Jóhann Sæmundsson, garðyrkjubóndi á Friðarstöðum, segir að strax eftir skjálftann hafi Grýla lifnað við og gosið duglega.

Að sögn Diðriks gaus Grýla ætíð á um tveggja klukkustunda fresti fyrir nokkrum áratugum síðan en að hverinn hafi síðan átt erfitt með að gjósa sökum þess að hann hafi nær fyllst af grjóti. Af þeim sökum þykir Diðriki ótrúlegt hversu virkur hverinn hefur verið eftir skjálftann. Segir hann að Grýla gjósi nú reglulega og þá tignarlega upp í fimm til sjö metra.

Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir mjög eðlilegt að goshverasvæði taki við sér eftir stóra skjálfta. „Skjálftasprungurnar opna vatnsfarveginn fyrir heita vatnið. Svæðið við Hveragerði hefur reyndar alltaf verið mjög virkt og þó það væru ekki svona stórir skjálftar þá hafa verið að myndast hverir á svæðinu og það allt verið að breytast í gegnum tíðina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×