Viðskipti erlent

Vændiskonur í Frankfurt fitna í kreppunni

Þótt fjármálakreppan hafi leikið Frankfurt, helstu fjármálamiðstöð Þýskalands, grátt er mikil uppsveifla þar í gangi meðal vændiskvenna borgarinnar. Þær hafa aldrei haft meir að gera en þessa dagana við að "hugga" útúrtaugaða verðbréfamiðlara.

Rauða hverfið í Frankfurt liggur við aðaljárnbrautarstöð borgarinnar og aðeins steinsnar frá kauphöllinni og höfuðstöðvum helstu banka og fjármálastofnana landsins. Vændi er löglegt í Þýskalandi og borga vændiskonurnar skatt af starfsemi sinni.

Internetsíðan Kontakt 24 gerði nýlega könnun meðal vændiskvenna og kynlífsklúbba borgarinnar en samkvæmt henni hefur umsetningin aukist töluvert eftir að fjármálakreppan skall á. HJá kynlífsklúbbum hefur aðsóknin aukist um 8% að meðaltali frá því að kreppan skall á.

Læknirinn Elia Bragagna segir í samtali við fréttatímaritið News að spenna, stress og óvissa um framtíðina í kjölfar kreppunnar geri það að verkum að kynlíf aukist hjá hluta fólks en hverfi alveg hjá öðrum. Greinilegt er að fjármálamenn tilheyra fyrri hópnum í nokkrum mæli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×