Viðskipti innlent

Green sagður hafa hækkað tilboð sitt í skuldir Baugs

Breski auðmaðurinn Philip Green er sagður hafa hækkað tilboð sitt í skuldir Baugs. Daily Mail hefur það eftir Green að svara verði tilboði hans innan tveggja sólarhringa annars verði ekkert af kaupnunum. Allar búðir Baugs í Bretlandi eru opnar í dag.

Fullyrt er í Daily Mail að Green muni eiga fund með Gunnari Sigurðssyni, forstjóra Baugs, í dag til að fara yfir málið. Ekki náðist í Gunnar til að staðfesta það. Skuldirnar sem um ræðir standa á bak við tæplega 30 prósenta hlut í Moss Bros, 20 prósenta hlut í French Connection og 7 prósenta hlut í Debenhams. Auk þessara hluta telur eignasafn Baugs í Bretlandi stórverslanirnar House of Fraiser og Hamleys og hlut í matvörukeðjunni Iceland.

Eins og fram kom í fréttum okkar í gær er talið nær útilokað að gengið verði að tilboði Green. Heimildir fréttastofu herma að fyrsta tilboð Greens hafi hljóðað upp á tæplega 10 prósent af heildarvirði skulda Baugs í íslensku bönkunum. Hann hafi hinsvegar hækkað tilboð sitt um þriðjung.

Innlendir og erlendir lánadrottnar eru ekki sagðir geta unað við það að Green eignist Baug á brunaútsölu og því sé unnið að því að koma í veg fyrir það að verðmætin sem íslensku bankarnir liggja á gufi upp.

Finnur Sveinbjörnsson, í skilanefnd Kaupþings, vildi ekki staðfesta að Green hafi sett tímaramma á tilboð sitt.

Hermt hafði verið að búðir fyrirtækja Baugs yrðu lokaðar í dag en það reyndist rangt. Allar búðir Baugs í Bretlandi eru opnar í dag.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×