Viðskipti erlent

BHP hættir við yfirtöku sína á Rio Tinto

BHP, stærsta námufélag heimsins, er hætt við yfirtöku sína á Rio Tinto móðurfélagi álversins í Straumsvík. BHP ætlaði að verja 66 milljörðum dollara til yfirtökunnar.

Marius Kloppers forstjóri BHP segir í samtali við Bloomberg fréttaveituna að yfirtakan hefðu aukið mjög skuldir félagsins og í núverandi árferði væri erfitt að selja eignir á móti.

Evrópubandalagið hafði áður lýst yfir áhyggjum sínum af því að yfirtakan myndi hafa í för með sér skerta samkeppnisstöðu, einkum hvað sölu á járngrýti varðar, sökum þess hve umfangsmikið BHP hefði orðið með yfirtökunni.

Yfirtökutilboðið hafði komið mjög við kaunin á stálframleiðendum, helstu kaupendum járngrýtis, því þeir reiknuðu með miklum hækkunum á því samfara yfirtökunni.

Við tíðindin hækkuðu hlutir í BHP á markaðinum í London um 11% en hlutir í Rio Tinto féllu um 36%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×