Viðskipti erlent

Netverslun minnkar

Sendingar vefverslana heimsins hafa um allangt skeið verið fyrirferðarmiklar í póstsendingum til landsins.
Sendingar vefverslana heimsins hafa um allangt skeið verið fyrirferðarmiklar í póstsendingum til landsins. Fréttablaðið/Vilhelm
Samdráttur varð í fyrsta sinn í netverslun í Bandaríkjunum í byrjun nóvember, eftir stöðugan vöxt undanfarin ár. Hann hefur að jafnaði verið 15 prósent á ári.

Samkvæmt rannsókn ráðgjafarfyrirtækisins comScore var netverslun fyrstu þrjár vikur í nóvember fjórum prósentum minni en á sama tíma í fyrra. Samkvæmt tölum Mastercard nam samdrátturinn 7,5 prósentum fyrstu tvær vikur mánaðarins, auk þess sem þær sýna 3,9 prósenta samdrátt í október miðað við sama tíma í fyrra.

„Alveg er klárt að netverslun Íslendinga hefur dregist saman á síðustu vikum, enda ástandið mjög óeðlilegt,“ segir Pétur Friðriksson, forstöðumaður úgáfusviðs hjá Borgun, sem þjónustar Mastercard á Íslandi, en segir tölur um netverslun þó ekki liggja á lausu.

Andri Valur Hrólfsson, hjá Valitor segir að erfitt sé að mæla netverslun Íslendinga innanlands, því mikið af henni fari í raun í gegn um síma. „Þessi verslun er í raun mjög stutt komin hér,“ segir hann.

Samkvæmt rannsókn Rannsóknaseturs verslunarinnar í vor hefur velta í netverslun hér dregist saman á hverju ári frá 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×