Skoðun

Á að fjármagna skólastarf með lánsfé?

Hjalti Þór Vignisson skrifar

Hjalti Þór Vignisson skrifar um fjármál sveitarfélaga

Á síðustu árum hefur Jöfnunarsjóður sveitarfélaga staðið undir meira en þriðjungi skatttekna sveitarfélagsins Hornafjarðar. Undanfarin tvö ár hefur ríkið beitt sér fyrir því að efla sjóðinn og framlög úr honum hafa ásamt aðhaldi í rekstri sveitar­félagsins leitt til þess að skuldir sveitarsjóðs hafa lækkað umtalsvert. Þær nema nú innan við helmingi af árlegum tekjum hans. Mikilvægi Jöfnunarsjóðs fyrir sveitarfélag eins og Hornafjörð er því hafið yfir allan vafa.

Án Jöfnunarsjóðs er hætta á að þau sveitarfélög sem staðið hafa höllum fæti þurfi að fjármagna lögbundna grunnþjónustu á borð við leik- og grunnskóla með lánum. Eins og nú háttar til á lánamörkuðum innanlands og utan eru möguleikarnir ekki margir og kjörin sem bjóðast óhagstæð. Lántaka við núverandi aðstæður myndi aðeins leiða til vítahrings sem örðugt yrði að brjótast út úr.

Það er því full ástæða til að taka undir efnisatriði yfirlýsingar sem stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga samþykkti nýverið, þar sem lögð var áhersla á að leiða til lykta samningaviðræður við ríkið um fjármál sveitarfélaga.

Yfirlýsingin var send til sveitarstjórnarmanna, þingmanna og fjölmiðla. Í henni er m.a. lögð áhersla á að 1.400 milljóna króna aukaframlag til sveitarfélaga utan vaxtar­svæða verði áfram greitt í Jöfnunarsjóð eins og undanfarin ár. Ef rétt er á málum haldið á Jöfnunarsjóður sveitarfélaga að geta orðið eitt besta tæki stjórnvalda til jöfnunar á lífsskilyrðum og tækifærum í landinu.

Sveitarfélagið Hornafjörður teygir sig yfir meira en 200 km eftir hringveginum; frá Hvalnesskriðum í Lóni og vestur fyrir Gígjukvísl á Skeiðarársandi. Á þessu stóra svæði búa 2.200 manns, þar af um 1.650 á Höfn. Fjarlægð Hafnar í Hornafirði frá öðrum stórum byggðakjörnum kallar á öfluga og víðtæka þjónustu sveitarfélagsins við íbúa þess. Í raun má segja að samfélagið í sveitarfélaginu verði að vera sjálfu sér nægt um flesta hluti. Þetta hefur gengið eftir, en til að tryggja samkeppnisstöðu svæðisins gagnvart öðrum landshlutum þarf að halda vel á spilum og fjármunum. Hornafjörður leggur áherslu á að ríkisstjórnin komi myndarlega að eflingu Jöfnunarsjóðs.

Aðgerðaleysi á þeim vettvangi er bein ávísun á ójöfn lífsgæði. Mörg sveitarfélög myndu ekki hafa burði til að veita þjónustu sem nútíminn krefst.

Það gefur auga leið að Jöfnunarsjóður skiptir mjög miklu máli fyrir Hornafjörð. Til að sinna verkefnum sínum í víðfeðmu og strjálbýlu sveitarfélagi þarf aðra tekjustofna en fasteignagjöld og útsvar. Þjóðarsál Íslendinga endurspeglast í þeirri grundvallarkröfu að allir landsmenn njóti sömu tækifæra hlutdeildar í lífsgæðum nútímans án tillits til búsetu. Að sveigja af þeirri leið árið 2008 væri stórt skref aftur á bak.

Höfundur er bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar.






Skoðun

Sjá meira


×