Viðskipti erlent

Glitnir óskar gjaldþrotaverndar í Bandaríkjunum

Glitnir í Bandaríkjunum hefur óskað eftir gjaldþrotavernd frá lánadrottnum sínum. Beiðnin var þingfest fyrir gjaldþrotadómstóli á Manhattan í New York síðdegis í gær.

Samkvæmt frétt á Bloomberg munu skuldir Glitnis nema rúmlega milljarði dollara eða um 140 milljörðum kr. og eignir á móti nema sömu upphæð eða rúmlega milljarði dollara.

Fram kemur í plöggum sem lögð voru fram í dómstólnum að frá árinu 2005 hafi lánastarfsemi Glitnis í Bandaríkjunum numið yfir 7 milljörðum dollara eða hátt í 1.000 milljarða kr..

Bloomberg vitnir í Steinunni Guðbjartsdóttur sem dómstólinn hefur skipað sem aðstoðarkonu Glitnis við endurskipulagningu á bankanum. Steinunn segir m.a. að ástæðurnar fyrir beiðni Glitnis séu hrun íslenska bankakerfisins og mikil lækkun á gengi krónunnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×