Skoðun

Opið bréf til formanns SVÞ

Friðrik Arngrímsson skrifar um stefnu Samtaka atvinnulífsins

Kæra Hrund.

Í bréfi þínu til félagsmanna Samtaka verslunar og þjónustu í dag varðandi það álitaefni hvort Samtök atvinnulífsins eigi að beita sér fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið og upptöku evru eru alvarlegri ásakanir og rangfærslur en við verður búið.

Samtök atvinnurekenda í sjávarútvegi hafa eindregið hvatt til þess að Samtökum atvinnulífsins verið ekki beitt í baráttu með eða á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Frá því að nýr formaður Samtaka atvinnulífsins hóf að tjá sig í nafni þeirra, að okkur finnst þvert á gildandi stefnu samtakanna, höfum við lagt áherslu á að um málið verði fjallað á réttum vettvangi samtakanna og að línur séu skýrar.

Á stjórnarfundi í Samtökum atvinnulífsins þann 5. október sl. var málið til umfjöllunar. Ekki kom til atkvæðagreiðslu um það á fundinum og það vorum við, fulltrúar samtaka í sjávarútvegi, sem bentum á að samkvæmt samþykktum samtakanna þyrfti að bera málefnið undir aðildarfyrirtækin, þ.e. félagsmenn sjálfa, áður en til slíks kæmi.

Niðurstaðan var sú að málinu var ekki vísað til framkvæmdastjórnar heldur var það áfram á borði stjórnar SA. Umboð fyrirsvarsmanna samtakanna var einfaldlega að lýsa málum eins og þau eru, þ.e. að skiptar skoðanir séu meðal aðildarsamtaka en að stjórnir samtaka með meirihluta atkvæðisréttar séu hlynntar aðildarumsókn. Á fundinum kom fram að LÍÚ gæti ekki verið í samtökum sem berðust gegn grundvallarhagsmunum sjávarútvegsins.

Fullyrðingar þínar um „tilraun LÍÚ að reyna að hindra að málefnið sé tekið á dagskrá og reyna að hindra að aðrir félagsmenn fái að tjá sinn vilja og verja sína hagsmuni með bestum hætti" eru sérlega meiðandi. Við höfum eins og áður er lýst lagt áherslu á að málið sé afgreitt á réttum vettvangi komi til þess að afstöðu SA verði breytt og að áður en að slíkt gerist beri að leita eftir afstöðu aðildarfyrirtækja samtakanna.

Við sáum okkur hins vegar tilneydd til að gera athugasemdir við afgreiðslu formanns SA og framkvæmdastjórnar á málinu. Það er óásættanlegt að formaður SA skyldi ekki verða við þeirri beiðni þriggja stjórnarmanna að afgreiða málið í stjórn þar sem öll aðildarsamtök Samtaka atvinnulífsins eiga fulltrúa eða áheyrnarfulltrúa enda brýtur það gegn samþykktum samtakanna. Það er jafnframt afar sérstakt að formaður og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins skyldi hafna beiðni okkar um að aðildarfyrirtæki SA verði spurð um afstöðu þeirra til einhliða upptöku annars gjaldmiðils án inngöngu í Evrópusambandið. Þá finnst mér það ekki lýsa sérstaklega mikilli lýðræðisást að ekki megi spyrja aðildarfyrirtæki SA um það hvort þau vilji að SA beiti sér fyrir inngöngu í ESB þrátt fyrir að það þýði afsal á yfirráðum yfir fiskimiðunum við Ísland eins og við fórum fram á.

Ég fer þess á leit að þú sendir þetta bréf til þeirra aðila sem fengu bréf þitt.

Höfundur er formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna og stjórnarmaður í Samtökum atvinnulífsins.






Skoðun

Sjá meira


×