Viðskipti innlent

Ekki hægt að fullyrða um hvort botninum sé náð

Gylfi Magnússson, hagfræðingur og dósent við háskóla Íslands segir að Seðlabankinn hafi enga góða kosti í þeirri stöðu sem nú er uppi í íslensku fjármálalífi. Hann segir ekkert hægt að fullyrða um hvort botninum sé náð, það eina sem hægt sé að fullyrða um er að menn vita ekkert. Gylfi var gestur Sindra Sindrasonar í þættinum Í lok dags á Vísi í dag.

Gylfi sagði afar líklegt að á næstunni fari að berast fréttir af fyrirtækjum og einstaklingum sem þola ekki þessa miklu lækkun sem verið hefur á markaði hér og því væri ljóst að sumir verði gjaldþrota. Aðspurður hvaða kostir væru í stöðunni fyrir Seðlabankann sagði hann að þeir væru fáir og engir þeirra góðir. „Staðan er þannig að atburðaráðsin er komin úr höndunum á Seðlabankanum," sagði Gylfi.

Einnig kom fram í máli Gylfa að nú verði menn að fara að huga að því hvernig eigi að fara að því að borga skuldir þjóðarbússins en það væri ljóst að það taki „ár eða áratugi að greiða úr þessu klúðri."

Gylfi sagði einnig að engin skammtímalauns fælist í því að henda krónunni núna. „En ég held að þessi krísa núna ýti mjög undir málstað þeirra sem halda því fram að það sé betra að vera hluti af stærri gjaldmiðli."

Gylfi benti líka á að hluti vandans væri hve ungt hagkerfið væri hér á landi og hve starfsmenn fjármálafyrirtækjanna hafi verið óreyndir. Hann sagði þá lexíu vera dýrkeypta, „en vonandi verður kerfið sterkara en áður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×