Viðskipti erlent

Ólag á gjaldeyrisviðskiptum truflar starfsemi Eimskips

Þótt áhrif gengislækkunnar krónunnar hafi hingað til haft óveruleg áhrif á rekstur Eimskips hafa gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur truflað greiðsluferli félagsins að einhverju leyti. Án þess þó að hafa nein áhrif á þjónustuna enn sem komið er.

Þetta kemur fram í greinargerð sem Eimskip hefur sent Fjármálaeftirlitinu að beiðni þess. Fram kemur að mikil óvissa ríki um stöðu margra fyrirtækja á Íslandi um þessar mundir sem getur haft bein eða óbein áhrif á rekstur Eimskip.

Eins og kunnugt er vinnur Eimskip nú að fjárhagslegri endurskipulagningu og stefnir að sölu á einingum sem tengjast frystigeymslustarfsemi félagsins. Söluferlið gengur samkvæmt settum markmiðum og óvissa á fjármálamörkuðum hefur ekki haft bein áhrif á ferlið að svo stöddu.

 

Möguleg óvissa um mat á eignum og skuldum félagsins snýr helst að þeim afleiðusamningum sem félagið gerði við íslenskar lánastofnanir til að verja gengistengda fjármögnun sína og ekki liggur nákvæmlega fyrir hvernig farið verður með. Einnig ríkir áfram óvissa um svokallaða XL kröfu sem félagið tilkynnti sérstaklega um þann 7. október síðastliðinn. Unnið er að úrlausn þessara mála.

 

Mjög erfitt er að meta framtíðarhorfur félagsins að svo stöddu í ljósi óvissu um þróun mála á fjármálamörkuðum. Félagið starfar á mörgum mörkuðum sem hingað til hafa þróast misjafnlega og því erfitt að segja nákvæmlega til um framtíðarhorfur félagsins í heild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×