Viðskipti innlent

Skuldir heimilanna hafa aukist um 28% á árinu

Skuldir heimilanna jukust um ríflega 7% á þriðja fjórðungi ársins, fyrst og fremst vegna beinna og óbeinna áhrifa af gengislækkun krónu. Á ársgrundvelli nemur aukning skulda heimilanna hins vegar 28%.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að skuldirnar námu 1.890 milljörðum kr. í septemberlok, sem nemur u.þ.b. 135% af áætlaðri landsframleiðslu þessa árs.

Seðlabankinn birti nýlega yfirlit yfir skuldir og eignir lánakerfisins og þar kemur m.a. fram að skuldir heimilanna við bankakerfið voru u.þ.b. 1.030 milljarða kr. í lok september, sem samsvarar 55% af heildarskuldum heimilanna á þeim tíma.

Skuldir við ýmis lánafyrirtæki, þar sem Íbúðalánasjóður vegur þyngst, voru 594 milljarðar kr. eða tæpur þriðjungur heildarskuldanna. Lífeyrissjóðum skulduðu heimilin svo 156 milljarða kr. og skuldir við Lánasjóð íslenskra námsmanna námu röskum 100 milljörðum kr. í septemberlok.

Skuldasöfnun heimilanna hefur verið veruleg á síðustu árum eftir tiltölulega hóflegan vöxt á fyrstu árum aldarinnar. Í ársbyrjun 2004 námu heildarskuldir þeirra við lánakerfið 772 milljörðum kr. og hafa skuldirnar því aukist um 145% á tæpum hálfum áratug.

Þá hefur samsetning skuldanna breyst verulega þar sem gengisbundnar skuldir voru fátíðar fyrir fimm árum síðan en námu ríflega 15% af heildarskuldum heimila nú í septemberlok.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×