Innlent

Áfallahjálp á skjálftasvæðinu efld

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Þjónustumiðstöðvar á jarðskjálftasvæðunum verða opnar í dag frá klukkan 13 - 20 og sinnir fagfólk heilbrigðisþjónustunnar nú áfallahjálp ásamt Rauða krossinum og prestum. Þetta segir Íris Marelsdóttir, verkefnastjóri heilbrigðismála hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

„Það er verið að dreifa vatni á flöskum og veita áfallahjálp og svara öllum spurningum sem íbúar hafa varðandi skjálftann. Það á enginn að fara út án þess að hafa fengið svör. Eins eru þarna fulltrúar frá tryggingunum sem svara fyrirspurnum um tjón," sagði Íris.

Hún segir það enn fremur öruggt mál að miðstöðvarnar verði opnar áfram, hins vegar sé verið að ræða möguleikana á því að sameina þær í eina miðstöð. Það verði þó ekki fyrr en almannavarnadeildin meti stöðuna svo að þörfin fyrir tvær miðstöðvar hafi minnkað. „Mikið hefur verið um að fólk komi og spyrji um tryggingamál og eins hefur fólk komið til að fá áfallahjálp sem Rauði krossinn hefur veitt þar til í dag. Margir koma líka bara til að spjalla," sagði Íris.

Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar, er staddur á hamfarasvæðinu. Hann segir drykkjarvatn komið í lag annars staðar en í Hveragerði en beðið sé eftir niðurstöðu um ástand vatnsins þar. Muni það skýrast í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×