Erlent

Flug Alitalia raskast vegna mótmæla starfsmanna

Starfsmenn á vegum ítalska flugfélagsins Alitalia efndu í dag til verkfalls á Fiumicino-flugvelli í Róm til þess að mótmæla uppsögnum og endurskipulagningu á félaginu.

Þetta hafði þær afleiðingar að umferð til og frá flugstöðinni stöðvaðist um tíma. Fyrr í dag þurfti Alitalia að aflýsa 40 flugferðum eftir að starfsmenn á vegum annars verkalýðsfélags efndu til fjögurra klukkustunda verkfalls til að mótmæla sömu aðgerðum félagsins. Var um að ræða bæði flugferðir innan lands og til annarra áfangastaða í Evrópu.

Alitalia berst nú í bökkum og reyna ítölsk stjórnvöld að selja nærri helmingshlut sinn í félaginu. Air France hafði um tíma áhuga á að kaupa félagið en vegna mótmæla heima fyrir ákvað stjórn Silvios Berlusconis að reyna að finna innlenda kaupendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×