Skoðun

Hrímaðar kveðjur

Á gráum og votum haustdögum tóku stúdenta- og námsmannahreyfingar landsins höndum saman og sameinuðust um óskir til ríkisstjórnar. Helsta beiðnin var sú að fjármagn til LÍN yrði ekki skert enda vissum við öll af hættunni: að sneiðar Lánasjóðsins og háskólanna frá ríkinu yrðu minni en vonir stæðu til. Fáir gerðu ráð fyrir þeim óðaniðurskurði tveggja fyrrnefndra eininga sem nýjustu fjárlög gera ráð fyrir. Ríkisstjórn mælir fyrir 1.360 milljóna niðurskurði hjá LÍN nú þegar hlutverk sjóðsins er margfalt brýnna en í góðæri. Hvernig sú ákvörðun ætlar að mæta þeirri fjölgun stúdenta sem neyðast til að taka námslán á komandi misserum er óskiljanlegt. Nú þegar hefur óðaverðbólga étið upp hækkun námslána síðan í vor og útlit fyrir góða Lánasjóðssamninga næsta vor er sótsvart.

Það er enginn að segja að stúdentar eigi að vera súkkulaðikleinur í allsherjarniðurskurði þjóðarkökunnar, enda skella á námsmönnum hærri skattar, gjöld og skuldbindingar eins og öðrum þjóðfélagsþegnum. Það sem við bendum á er að ríkisstjórn hyggst draga saman LÍN-seglin m.a. með því að reikna með 5% aukningu þeirra sem sækja um námslán þegar fyrirliggjandi gögn reikna með 20-30% aukningu. Þegar öllu er á botninn hvolft eru þetta lán sem námsfólk greiðir ríkinu til baka, annað en til dæmis atvinnuleysisbætur.

Stúdentaráð gerir einnig athugasemd við 951 milljóna niðurskurð á starfsemi Háskóla Íslands sem kemur til með að bitna allverulega á rannsóknarsamningi sem HÍ gerði við menntamálaráðherra við hátíðlega athöfn og átti að hjálpa skólanum að ná í sæti meðal topp 100 háskóla í heimi. Það er auðvelt að ímynda sér hvernig starfslið og sögulega margir stúdentar HÍ munu líða fyrir niðurskurðinn: setið verður frammi á gangi í stórum námskeiðum, námsleiðir verða lagðar niður, aðstöðu fer hrakandi og kennarar lækka í launum. Fulltrúar stúdenta hafa ítrekað bent á að varnir gegn efnahags- og atvinnuáföllum eru efling menntunarstigs þjóðar, rannsókna og nýsköpunar en á það virðist ekkert hlustað sem eru vægast sagt hrímaðar kveðjur til ríflega 20.000 námsmanna.

Fyrir hönd stúdenta á Íslandi auglýsi ég hér með eftir stefnu ríkisstjórnar og þingflokka í menntamálum íslenskra stúdenta. Fyrir kosningar lofa allir stjórnmálaflokkar að efla lánasjóðskerfið og halda hugmyndum um mennta- og nýsköpunarsamfélag á lofti en þegar í harðbakkann slær eru sárafáir tilbúnir að fylgja þeirri stefnu eftir. Hvernig hyggist þið mæta þeim gríðarlega fjölda sem sækir um námslán frá LÍN á næstu önn? Vitið þið að skráning í Háskóla Íslands í grunn- og framhaldsnám er sexföld miðað við vorönn í fyrra? Finnst ykkur allt í lagi að stúdentar neyðist til þess að fá yfirdrátt á 20% vöxtum frá ríkisbönkum fyrir eftirágreiddu láni? Og síðast en ekki síst viljið þið að stór hópur námsmanna segi skilið við landið af því að ríkisstjórn hugsaði ekki lengra en góðærinu nam?

Höfundur er formaður Stúdentaráðs.






Skoðun

Sjá meira


×