Viðskipti erlent

Ekki lengur freyðandi sala á kampavíni

Salan á kampavíni er ekki lengur freyðandi. Fjármálakreppan í heiminum kemur við kaunin á kampavínsframleiðendum eins og flestum öðrum. Bara í október var salan 16,7% minni en í sama mánuði í fyrra.

Í umfjöllun um málið á vefsíðunni E24.no segir að sala á kampavíni hafi aukist ár frá ári síðan um aldamótin. Og hún rauk upp í verðbréfabólunni síðustu tvö árin. Nú eru aðrir tímar.

Patrice Noyelle forstjóri hins 160 ára gamla kampavínsframleiðenda Pol Roger segir að fjármálakreppan og samdrátturinn sökum hennar komi töluvert við kaunin.

Og Laurent-Perrier einn af risunum í kampavínshéraðinu Epernay segir að salan hjá fyrirtækinu hafi minnkað um 35% á seinni helmingi ársins miðað við fyrri helminginn.

Þótt árið 2008 verði ekki nærri eins gott og 2007 er Noyelle þó hóflega bjartsýnn á framtíðina. Að vísu muni kampavín ekki hækka í verði á næstunni eins og það hefur gert hvert einasta ár síðasta áratuginn en það selst alltaf.

Noyelle vitnar í orð Winston Churchill sem sagði um kampavín: "Ég á það skilið þegar ég vinn, ég þarfnast þess þegar ég tapa."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×