Viðskipti innlent

Laun hafa hækkað um 8,5% frá fyrra ári

Frá fyrra ári hækkuðu laun um 8,5% eða 9,2% á almennum vinnumarkaði og um 6,7% hjá opinberum starfsmönnum.

Samkvæmt vísitölu launa voru regluleg laun að meðaltali 2,6% hærri á öðrum ársfjórðungi 2008 en í ársfjórðungnum á undan. Á sama tímabili hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 3,1% að meðaltali og laun opinberra starfsmanna um 1,6%.

Greint er frá þessu á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að frá fyrri ársfjórðungi hækkuðu laun verkafólks mest eða um 5,0% en laun sérfræðinga hækkuðu minnst, um 1,6%. Laun verkafólks hækkuðu jafnframt mest frá öðrum ársfjórðungi 2007 eða um 11,2% en laun stjórnenda hækkuðu minnst, 7,5%.

Hækkun launa eftir atvinnugrein mældist mest í samgöngum og flutningum eða 4,7% frá fyrri ársfjórðungi en minnst mældist hækkun launa í fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum eða 1,4%.

Frá fyrra ári hækkuðu regluleg laun í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð mest eða um 10,7% en minnst mældist hækkunin í iðnaði eða 8,5%.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×