Viðskipti erlent

Skortur á fiskkörum ógnar útgerð dagróðrabáta

Á Bolungarvík hafa menn nú af því miklar áhyggjur að verða uppiskroppa með fiskikör. Raunar er ástandið svo alvarlegt að menn óttast að komast ekki á sjó á morgun.

Að sögn Reimars Vilmundarsonar í Bolungarvík hafa flutningsaðilar - Samskip og Eimskip - ákveðið að innheimta gjald fyrir flutning tómra kara á áfangastað.

Fjallað er um málið á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. Reimar segir gjaldið alltaf hafa verið inni í flutningskostnaðinum, en nú eigi ekki að lækka kostnaðinn samsvarandi á móti. Hér sé því gerð krafa um hækkun sem er vitaskuld úr takt við það sem boðað hefur verið.

Reimar segir Umbúðamiðlun, sem er eigandi karanna, hafa hafnað því að bera þennan kostnað og því hafi flutningsaðilar afsett körin á sinni lóð í stað þess að fiskmarkaðurinn tæki við þeim.

Karaleysi á fiskmarkaði Bolungarvíkur er strax farið að gera vart við sig og fæst ís þar nú ekki afgreiddur. Þá hafa smábátaeigendur af því miklar áhyggjur að komast ekki á sjó á morgun vegna yfirvofandi karaskorts.

Unnið er að lausn deilunnar milli flutningsaðila, Umbúðamiðlunar og fiskmarkaðarins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×