Viðskipti erlent

JPMorgan telur olíuverð geta farið í 35 dollara á tunnuna

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur haldist nær óbreytt í dag eftir miklar lækkanir í síðustu viku. Að öllu óbreyttu telur sérfræðingur JPMorgan bankans að olíuverðið geti farið niður í 35 dollara á tunnuna.

Þetta kemur fram í viðtali Dow Jones fréttaveitunnar við Lawrence Eagles aðalgreinenda JPMorgan á hrávörumarkaðinum. Eagles segir að ef OPEC-ríkin dragi ekki verulega úr framleiðslu sinni sé 35 dollarar á tunnuna líklegt verð í náinni framtíð.

"OPEC þarf að skera niður framleiðslu sína um allt að 3 milljónir tunna á dag til að vega upp á móti minnkandi eftirspurn vegna samdráttar í efnahafslífi heimsins sem er framundan," segir Eagles.

Samhliða þessu hefur JPMorgan dregið úr væntingum sínum um olíuverð á næsta ári, úr 74,75 dollurum í október í 69 dollara fyrir tunnuna. Þetta byggir á því að OPEC muni draga úr framleiðslu sinni í samræmi við minnkandi eftirspurn.

Verð á Norðursjávarolíu til afhendingar í janúar er nú 49 dollarar á tunnuna og verðið á WTI-olíunni er 50 dollarar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×