Viðskipti erlent

Baugur kominn í útsölustríð í London

Baugur Group er nú kominn í harðvítugt útsölustríð í bestu verslunargötum London. Fjármálakreppan og auraleysi almennings í Bretlandi eru undirrót stríðsins sem hófst meðal minni verslana í London en hefur nú breiðst út til stærri verslunarkeðja.

Í morgun auglýsti Marks & Spencer eins dags útsölu þarf sem verð á öllum vörum var lækkað um 20%. Þessu svaraði Debenhams, sem er að hluta til í eigu Baugs, með því að auglýsa sína dagsútsölu í dag með 25% afslætti á öllum vörum nema skarti og ilmvötnum sem seld verða með 10% afslætti.

Í umfjöllun um stríðið í blaðinu Telegraph kemur fram að stórverslanir séu nú í örvæntingu að reyna að koma jólasölunni í gang en breskir neytendur hafa haldið að sér höndum með stórinnkaup undanfarnar vikur.

Sagt er að útsala Marks & Spencer af þessari stærðargráðu fyrir jól sé eindæmi í sögu keðjunnar. Að vísu var svipað upp á teningnum 2004 en þá var nýr forstjóri M&S kominn til sögunnar og útsalan þá var til að losna við gamlar og úreltar vörur.

Verslunarsérfræðingurinn Matthew McEachran hjá Singer segir í samtali við Guardian að M&S ætli sér í samkeppni við Debenhams og verði að líta á hina óvæntu útsölu og viðbrögð Debenhams í því ljósi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×